Leiðarvísir í ástamálum | Page 5

Jónína Sigríður Jónsdóttir

Það er rétt að drepa á það um leið, hvernig þú átt að umgangast unnusta
þinn.
Þú skalt gera þér far um að kynnast hans veiku hliðum og styrkja hann;
vera sannur vinur hans og ráðgjafi og vernda hann eftir mætti. Gleddu
hann með smágjöfum, ef þú getur, t. d. með blómum, ef hann er fyrir
þau. Þreyttu hann eigi með hégómlegri afbrýðissemi, en leitastu við að
auka ást hans og virðingu fyrir þér, og sýndu honum traust i hvívetna.
Oft sést trúlofað fólk kveðjast á kvöldin hér og hvar í portum og
skúmaskotum í kringum húsin. Það á ekki að eiga sér stað. Fólk tekur
eftir því og finst það grunsamt og slúðursögur komast á kreik. Það er
engin minkun fyrir trúlofað fólk að kveðjast með kossi við húsdyrnar.
Það er miklu kurteisara en pukur að húsabaki.

*Hvenær mega konur ganga í hjónaband?*
Giftingaraldur kvenna er með lögum ákveðinn, en eg vil benda þér á,
að aldurinn er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að ungu hjónin hafi eitthvað
fyrir sig að leggja til að bíta og brenna, þvi að sagt er, að ástin flýi oft
fátæktina og baslið.
Gaktu því eigi í hjónaband fyr en unnusti þinn hefir komist að stöðu
með lífvænlegum tekjum og aflað þess fjár til bússtofnunarinnar, sem
þið þurfið til þess að geta byrjað búskapinn skuldlaus.

*Góð eiginkona.*
Þegar þú giftist, tekst þú á hendur stærstu og ábyrgðarmestu stöðuna í
þjóðfélaginu, því að vissulega verður það eigi með rökum hrakið, að
meira er undir því komið fyrir þjóðina, að konur og mæður séu verki
sínu vaxnar, heldur en þó að labbakútur slæðist í eitt og eitt embætti.

Honum má víkja og setja annan hæfari mann í staðinn, en gifta konu er
eigi hægt að "setja af", þó að hún reynist liðléttingur í hjónabandinu.
Það er æfinlega miklu fremur konan, sem heimilið skapar, en maðurinn;
hennar andi ríkir þar og hennar svip ber það og í hennar hlutverk fellur
það að halda uppi aga og reglu innan vébanda heimilisins.--Á fleyi
heimilisins heldur konan um stjórnvölinn, en maðurinn er ræðarinn.
En hvernig má konan leysa þetta mikla hlutverk af hendi, svo að í lagi
sé? spyrð þú.
Með því að vera heimilisrækin, geðgóð, stjórnsöm, þolinmóð, þrifin,
réttsýn, sparsöm, starfssöm, gestrisin, vingjarnleg við heimilisfólkið og
ástúðleg við manninn sinn.
Með þvi að koma fram blátt áfram án alls yfirlætis eða geðþótta, með
trygglyndi, með sanngirni í kröfum sínum af öðrum, með því að vera
heil og ákveðin í skoðunum, með því að vera laus við alla hleypidóma
og slúðursögur og með því að vera ekki afbrýðissöm.
Það verður mörgum hjónaböndum til óhamingju, að konan er hrædd
um manninn sinn. Og þegar hann finnur, að hún vantreystir honum, þá
er skollinn laus!
Góð kona tekur þátt í störfum manns síns og fjasar eigi sýknt og heilagt
um það, hve mikið hún hafi að gera og hversu þetta eða hitt sé erfitt.
Þegar hann kemur heim frá vinnunni, byrjar hún eigi á að segja honum,
að nú hafi krakkarnir brotið "rósótta bollann" eða týnt gaffli eða hníf,
né að grauturinn hafi brunnið við, vegna þess, að potturinn, sem hann
hafi "skaffað" henni, sé "svoddan óræsti",--heldur snæðir hún með
honum fyrst og kemst eftir, hvernig á honum liggi. Síðan ber hún upp
fyrir honum sín vandamál og leitar ráða hans.
Góð kona hættir eigi að "halda sér til" fyrir manninum sínum rétt eftir
brúðkaupið, heldur klæðist hún jafn vel og áður. Öllum eiginmönnum
er ánægja að því, að sjá konu sína vel búna.
Elskaðu manninn þinn og vertu vinur hans og ráðgjafi, þá munt þú

verða hamingjusöm í hjónabandinu.

* * * * *
*Skósmiðurinn*: Hér eru stígvél úr egta kálfskinni fyrir að eins 50
krónur.
*Kaupandinn*: Hm, hm! Þá held eg að ódýrara verði að kaupa kálfinn.
* * * * *
*Ingimundur gamli.*
*Leiðarvísir í ástamálum.*
I. KARLMENN.
_Fæst hjá Arinbirni, Ársæli og Guðm. Gamalíelssyni._
*Ómissandi bók fyrir alla karlmenn.*
* * * * *
*Maðurinn*: Eg ætla að skreppa snöggvast út í Café Iðnó. Ef eg verð
eigi kominn heim kl 10....
*Konan*: Vertu bara rólegur! Þú ert kominn heim. (Hún aflokar).
* * * * *
*Frúin* (við eldhússtúlkuna): Eg sá að þú kystir mjólkurpóstinn áðan.
Það er best að eg taki sjálf við mjólkinni framvegis.
*María*: Það er ekki til neins fyrir frúna. Hann hefir lofað að kyssa
enga aðra en mig.
* * * * *

*ANGELA*
_er langskemtilegasta skáldsagan sem til er á íslensku._
*Fæst hjá öllum bóksölum.*
* * * * *
*Gísli*: Varstu ekki hálffeiminn, þegar þú byrjaðir bónorðið við
konuna þína.
*Páll*: Jú, dálítið. En það gekk samt ágætlega. Eg sagði ekkert og hún
sagði ekkert og svo spanst það svona orð af orði, þangað til það var
úttalað.

End of the Project Gutenberg EBook of Leiðarvísir í ástamálum by
Jónína
Continue reading on your phone by scaning this QR Code

 / 9
Tip: The current page has been bookmarked automatically. If you wish to continue reading later, just open the Dertz Homepage, and click on the 'continue reading' link at the bottom of the page.